"Af Óðni lærðu þeir allar íþróttir"
Samspil íþrótta og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga
5. maí - 30. nóvember
Meistaraverkefni Gunnars Óla Dagmararsonar
í hagnýtri þjóðfræði
Leiðbeinandi: Kristinn Schram
Þessi ljósmyndasýning nýtur sín best þegar hún fyllir skjáinn.
Til þess að láta hann fylla skjáinn þarf að tvísmella hvar sem er á síðuna.
Til þess að minnka hana aftur er tvísmellt aftur.
Í heiðnum sið trúði fólk því að það sem kallað var íþróttir væru guðlegar athafnir. “Af Óðni lærðu þeir allar íþróttir” ritaði Snorri Sturluson í Heimskringlu. Í Íslendingasögum, þjóðsögum og ævintýrum má lesa um fjölmörg íþróttaafrek fornmanna. Einnig færa staðarheiti á Íslandi sönnur fyrir þvi að íþróttir hafi verið iðkaðar á hinum ýmsu mannamótum, svo sem á Þingvöllum þar sem þjóðin kom saman um þúsund árum síðar til þess að fagna afmæli íslandsbyggðar og Alþingis, þjóðhátíð í skugga harmleiks Spánsku Veikinnar og á Lýðveldishátíð 1944.
Með myndum frá öllum þeim mannfagnaði og fleiru til er leitast við að varpa ljósi á samspil Íþrótta, sjálfsmyndar- og þjóðarímyndarsköpunar Íslendinga á árunum fyrir lýðveldisstofnun. Fjölmargir einstaklingar vörðuðu leiðina til sjálfsstæðis og voru íþróttamenn og konur framarlega í þeim flokki, ekki síst með því að beita fyrir sig penna sem ritstjórar helstu dagblaða landsins. Íþróttir voru einnig notaðar af ráðamönnum til þess að færa sönnur fyrir mætti þjóðarinnar til þess að standa sjálfsstæð á eigin fótum.
Kennarar við biskupsstólana að Hólum og í Skálholti lögðu áherslu á að nemendur glímdu jafnt af kappi og af fegurð enda má færa fyrir því rök að leikurinn hafi breyst úr leik í íþrótt með aukinni áherslu á settar reglur og réttar aðferðir. Enda fara af því sögur að vermenn sem lögðu stund á glímu hafi ekki staðist námsmönnum snúning þegar þeir mættust. Bessastaða- og Lærði Skólinn lögðu svo um aldamótin 1900 aukna áherslu á sund og sundkunnáttu.
Allar myndir eru fengnar úr safnkosti Ljósmyndasafns Íslands. Heiti myndar í gagnagrunni Sarps er getið til uppflettingar og frekari fróðleiks.
Jónas Hallgrímsson var fyrstur til þess að rita hér á landi bók um íþróttir stuttu eftir að skólagöngu hans lauk við Bessastaðarskóla. Bókin var þýðing á kennslubók um sund. Efnistökin gætu haft sitthvað með örlög föður hans að gera en faðir hans drukknaði í grunnu heiðavatni í Öxnadal þegar Jónas var barn að aldri.
Þegar líða tók á 19. öldina bættust fleiri skólar við sem íþróttir og líkamsrækt höfðu á stefnuskránni. Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnsettur árið 1874, Möðruvallaskóli árið 1880 og Flensborgarskóli í Hafnarfirði árið 1882. Í Kvennaskólanum hófst leikfimikennsla á fyrsta starfsári skólans. Lítið er vitað um hvernig þeirri kennslu var háttað annað en að Valgerður Jónsdóttir annaðsti kennsluna. Hún var fyrsta konan til þess að kenna íþróttir á Íslandi.
Árið 1908 var stigið mikilvægt skref í jafnréttisbaráttunni þegar fjárveiting fékkst frá bæjarstjórn Reykjavíkur til sundkennslu fyrir stúlkur. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, kvenréttindakona og bæjarstjórnarfulltrúi, kom fram með tillöguna og þótti sumum hún sína með því mikla heimtufrekju og tilætlunarsemi. Ingibjörg Brands var ráðin til þess að kenna stúlkunum sund en hún var menntaður íþróttakennari og kenndi leikfimi í Barnaskóla Reykjavíkur og við Kvennaskólann eftir að hann tók til starfa.
Árið 1928 vann Ásta Jóhannesdóttir, 22 ára símamær úr Reykjavík, mesta sundafrek sem nokkur kona hafði afrekað með því að synda alla leið frá Viðey og upp að bæjarbryggjunni í Reykjavíkurhöfn. Vegalengdin var talin um 4 km. og var Ásta rétt innan við tvær klukkustundir á leiðinni. Var þetta talið mesta íþróttaafrek Íslendinga árið 1928. Þetta var lengsta sund sem kona hafði þreytt hér í land í sjó.
Í mars árið 1908 var Ungmennafélagið Iðunn stofnað í þeim tilgangi að halda utan um æfingar hóps stúlkna í fimleikum. Mikil gróska var í starfi félagsins um nokkurt skeið og lögðu stúlkurnar stund á ýmsar íþróttir, þó aðallega fimleika og leikfimi. Hópurinn sendi einnig þrjá fulltrúa á stofnfund Íþróttasambands Íslands árið 1912. Sátu þær einar kvenna fundinn.
Þau tímamót urðu í íþróttastarfi á Íslandi árið 1906 að fyrsta ungmennafélagið, Ungmennafélag Akureyrar, var stofnað. Frumkvæði að því áttu Þórhallur Björnsson og Jóhannes Jósefsson sem báður höfðu þá getið sér gott orð sem einir fremstu íþróttamenn landsins. Líkt og svo fjölmargir sem á undan höfðu komið höfðu þeir dvalist erlendis og kynnst þar nýrri stefnu í félagsmálum ungs fólks sem byggði í senn á íþróttum, líkamsþjálfun, þjóðernisvitund og framfaravilja. Þeir ræddu hugsanlega félagsstofnun við ýmsa menn á Akureyri og fengu misjafnar undirtektir. Einn dyggan stuðningsmann áttu þeir þó, þjóðarskáldið Matthías Jockhumson. Vó það þungt.
Jóhannes Jósefsson keppti á Ólympíuleikunum 1908 í grísk-rómverskri glímu. Til Lundúna fór hann ásamt sex öðrum en þeir áttu að sýna hina íslensku glímu á leikunum. Förin var lengi í minnum höfð. Einn glímumanna var Sigurjón Pétursson.
Eftir frækilega framgöngu í grísk-rómversku glímunni lenti Jóhannes í fjórða sæti keppenda eftir að hafa glímt í framlengdri undanúrslitaviðureign. Eftir um tvær mínútur framlengingar brotnaði viðbein Jóhannesar eftir ólöglegt tak andstæðingssins en Jóhannes lét það lítið á sig fá og glímdi af krafti í 18 mínútur með brotið viðbein. Andstæðingnum var dæmdur sigur en Jóhannes varð að gefa viðureign sína um 3. sætið sökum meiðslanna. Hann var aftur á móti kvaddur fyrir konungshjónin bresku sem færðu honum viðurkenningarskjal en það tíðkaðist að veita þeim sem lentu í fjórða sæti í fangbragðagreinum slíkt. Þurftu Íslendingar svo að bíða í 48 ár eftir öðrum verðlaunum og betri árangri á leikunum.
Eftir að hafa jafnað sig á meiðslum sínum sýndi Jóhannes glímu í hringleikahúsum heimsins. Hann þénaði vel á því, svo vel raunar að hann byggði Hótel Borg fyrir féið og rak það með miklum myndarskap um árabil. Hótelið var eina almennilega gistihús landsins sem Íslendingar gátu boðið erlendum stórmennum á Alþingishátíðinni 1930.
Íslendingar máttu, gagnvart bresku skipulagsnefnd Ólympíuleikanna, sannarlega sýna glímuna undir merkjum Íslands en Jóhannes varð að láta sér það lynda að keppa undir merkjum Danmerkur eða keppa alls ekki. Þetta þótti hinum funheita þjóðernissinna Jóhannesi afar erfið staða en úr varð að lokum að hann keppti undir merkjum og fána Danmerkur. Degi fyrir sjálfa leikana var sýning íþróttamanna fyrir konung Englands á leikvanginum að viðstöddum áhorfendum. Þar sýndu íslensku glímumennirnir glímu í fyrsta sinn í förinni. Glíman vakti mikla athygli og var talsvert um hana skrifað í breskum blöðum. Glímumenn voru íklæddir aðskornum búningum sem sýndu vel glæsilegan vöxt þeirra. Jóhannes var í litklæðum sem foringja sómdi, klæddur bláum buxum, hnepptum undir hné, rauðum kyrtli og hafði á herðum bláa skikkju faldaða hvítu skinni. Hann var því kempulegur á að líta með burðarstöng Hvítbláans í hönd.
Sýningarflokki glímumanna var afar vel tekið, raunar svo mjög að flokkurinn sýndi glímu nokkrum sinnum í Lundúnum eftir leikana. Glímumenn fengu vinnu í fjölleikahúsi við að sýna glímuna og þar fengu þeir einnig áhorfendur til að koma upp á svið og reyna sig við glímumenn. Engum tókst að fella hina fimu og sterku Íslendinga og allir sem það reyndu lágu flatir á svipstundu. Áhorfendur voru því furðu lostnir yfir snarpleika glímumanna og hinum fimlegu fótabrögðum þeirra.
Í ársbyrjun 1912 gekk Sigurjón Pétursson hús úr húsi í Reykjavík til þess að koma mönnum saman um stofnun Íþróttasambands Íslands. Hann hafði líka persónulegan ávinning af því enda hafði hann verið nær ósigrandi á fyrsta landsmóti UMFÍ árið áður í hinum ýmsu íþróttagreinum, þar á meðal glímu þar sem hann var kringdur Glímukóngur. Sigurjón ætlaði sér að keppa í grísk-rómverskri glímu á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi það sama ár fyrir Íslands hönd.
Sigurjón fór til Kaupmannahafnar um vorið 1912 til æfinga. Þar sem umleitunum Íslendinga um að fá að keppa undir sínum eigin merkjum var skotið til dönsku Ólympíunefndarinnar til úrlausnar fór stjórn ÍSÍ þess á leit við Sigurjón að hann annaðist málið fyrir hennar hönd í Danmörku. Sigurjóni þótti það sjálfsagt mál en eins einkennilega og það kann að hljóma þá gætu afskipti Sigurjóns sjálfs hafa haft þveröfug áhrif á tilætlun ÍSÍ. Það rann nefnilega fljótt upp fyrir dönsku nefndinni að Sigurjón væri enginn eðlilegur íþróttamaður og raunar afar góður í fangbrögðum sínum. Það þótti því ótækt að missa svo góðan mann úr liði Dana og fór nefndin því fram á að Sigurjón keppti undir merkjum herraþjóðarinnar. Það þótti Sigurjóni vart svaraverð ósk, hann væri Íslendingur og fyrir Íslands hönd myndi hann keppa.
Á leikunum 1912 í Stokkhólmi keppti Jón Halldórsson í frjálsum íþróttum og allir átta fulltrúar Íslands sýndu glímu. Sýningin fékk afar lofsamlega dóma í sænskum blöðum, útnefnd fegursta og besta sýningin og aftur, líkt og í Lundúnum, voru búningar og glæsilegt vaxtarlag Íslendinganna til umræðu.
Benedikt G. Waage hlýtur að teljast til merkustu íþróttamanna sem Íslend hefur alið. Árið 1911 varð hann fyrstur manna til að synda Viðeyjarsund og sama ár sigraði hann einnig í stangarstökki á Landsmóti UMFÍ og varð árið eftir (og 1919) Íslandsmeistari með KR í knattspyrnu. Árið 1924 var hann í sveit ÍR sem sigraði á fyrsta fimleikameistaramóti Íslands. Hann var einnig forseti Íþróttasambands Íslands í hart nær fjörutíu ár eða frá 1926 til 1962. Öllum stundum lagði hann íþróttahreyfingunni lið með ýmsum hætti, svo sem með dómgæslu í knattspyrnu og þýðingu á lögum hennar. Lagði hann mikla áherslu á að þýða lögin á gott íslenskt mál og er notast við mikið af hans þýðingu enn þann dag í dag.
Árið 1910 var samband íþróttafélaga stofnað sem hafði það að megin markmiði að „hlynna að og vekja áhuga á alls konar heilbrigðum íþróttum í Reykjavík“ en það var þó fyrst og fremst ætlunarverk sambandsins að standa að gerð bærilegs íþróttavallar í höfuðstaðnum. Melavöllurinn var mikið mannvirki á þeirra tíma mælikvarða. Upphaflega var ráðgert að vígsluhátíð vallarins bæri upp á 17. júní 1911 og tengja þannig vígsluna aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta en þegar hafði verið ákveðið að færa hina árlegu þjóðhátíð til þess dags. Þó var ákveðið að halda sjálfa vígsluathöfnina 11. júní en þess í stað stórmót á nýja vellinum sem hefjast átti 17. júní og standa yfir í átta daga. Þar átti að sýna og keppa í nær öllum íþróttum sem Íslendingar lögðu stund á. Ungmennafélag Íslands stóð að mótinu og vonir voru bundnar við að íþróttamenn kæmu hvaðanæva að til mótsins. Þegar á hólminn var komið reyndust þó mun færri eiga heimangengt af landsbyggðinni en vonir höfðu staðið til.
Víglsuathöfnin var lengi í minnum höfð. Með víglsu leikvangsins var ekki eingöngu verið að fagna tilkomu hans heldur var vígslan einnig táknmynd þess að Íslendingar gátu sjálfir staðið fyrir slíkum framkvæmdum og það án mikils opinbers stuðnings. Það var til marks um þann gífurlega áhuga sem ríkti að á vígslu vallarins mættu um þrjú þúsund manns og höfðu vart komið svo margir saman áður í sögu Reykjavíkur en íbúar höfuðstaðarins voru ekki nema um tólf þúsund talsins á þeim tíma. Engum hafði komið það til hugar að svo margir kæmu til vígslunnar.
Segja má að íþróttamótið sem hófst 17. og lauk 25. júní hafi verið fyrsta íþróttahátíðin sem haldin var á Íslandi. Það var kallað fyrsta leikmót UMFÍ og spillti ekki hve örlátir veðurguðirnir voru. Öll kvöldin mætti margmenni til þess að bera augum sitt hraustasta fólk. Þarna fór einnig fram fyrsti opinberi knattspyrnuleikurinn á Íslandi þar sem lið Fram vann sigur á Knattspyrnufélagi Reykjavíkur enda þótt lið Fram hafi einungis verið skipað leikmönnum 18 ára og yngri. Þarna var einnig í fyrsta sinn keppt i sumum frjálsíþróttagreinum svo sem grindahlaupi eða girðingahlaupi eins og það var kallað. Stangarstökk sást þarna einnig í fyrsta skipti í höfuðstaðnum. Einnig fór fram sundkeppni í Skerjafirði sem einna minnisstæðust er fyrir þær sakir að sunddómnefndin, sem í voru margir helstu fyrirmenn bæjarins, lenti öll í köldum sjónum vegna óhapps.
Evrópustyrjöldin mikla, sem hófst síðsumars 1914 og varð að heimstyrjöldinni fyrri, hafði óneytanlega áhrif á Íslandi þó að eyðingarmáttur byssukúlna og sprengja hafi ekki náð til landsmanna. Raunveruleg yfirráð Dana voru harla lítil á stríðsárunum á Íslandi enda urðu Íslendingar að semja fyrir eigin hönd við Vesturveldin um hlutverk sitt, eða öllu heldur hlutverkaleysi, í stríðinu. Danir gátu lítið gert annað en að fylgjast með úr fjarlægð. Það var einnig hagur Íslendinga að slíta sig eins mikið og hægt væri frá Danmörku á þessum árum vegna þess sem gæti dunið yfir þjóðina ef Danmörk yrði hernumin. Því hafði heimstyrjöldin óneitanlega áhrif á sjálfsstæðisbaráttuna. Bréfaskrif, lagasetningar og vinna Alþingis á stríðsárunum leiddu til fullveldis 1918.
Litlu hátíðarskapi var þó fyrir að fara hjá landsmönnum þann 1. desember 1918 og skildi engan undra. Drepsótt, Spánska veikin, hafði lagt stóran hluta landsmanna að velli og geysaði veikin svo að segja hömlulaust í lok árs. Talið er að veikin hafi borist hingað til lands með skipsmönnum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október, sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt. Ofan á hina skæðu veiki lagðist svo mikið kuldakast sem verkaði þannig að veikin náði enn örari útbreiðslu um Reykjavík. Einnig var húsakostur í höfuðstaðnum afar slæmur enda lítið byggt eða viðhaldið á stríðsárunum vegna peninga- og efnisskorst. Sagt er í minnisbókum spítalans að sumir sjúklingar hafi verið helkaldir á höndum og fótum upp að hnjám, þó þeir hafi haft 40 stiga sótthita. Mannfallið var gífurlegt, alls létust 142 konur og 116 karlar í Reykjavík. Einnig varð mannfall, alls 230 einstaklingar, í Keflavík, í Hafnarfirði, á Akranesi, í Flatey, á Ísafirði, í Vestmannaeyjum, í Rangárvallasýslu, á Eyrarbakka og í Grímsnesi auk nokkurra smærri byggðarlaga.
Árið 1930 markar ákveðin þáttaskil í sögu Íslands. Það ár voru 1000 ára liðin frá stofnun Alþingis og því fagnað með mikilli hátíð á þingvellinum sjálfum, Þingvöllum. Hátíðin vakti heimsathygli. Þótti erlendum fjölmiðlum og ráðamönnum mikið til þess koma að Íslendingar gætu státað af því að boða til minningarhátíðar um Alþingi á þingvellinum sjálfum og fór það raunar svo að fjölmörg erlend fyrirmenni komu til landsins í þeim tilgangi að vera við þessa hátíðlegu athöfn. Varð úr landkynning sem Íslendingar höfðu aldrei átt að venjast og athygli og áhugi útlendinga á Íslandi jókst til muna. Vitaskuld var þetta vindur í segl þeirra sem barist höfðu fyrir sjálfsstæði.
Gísli Sveinsson, forseti sameinaðs Alþingis frá 1942 – 1945, ritaði eftirfarandi um eftirmála hátíðarhaldanna í bókinni Lýðveldishátíðin 1944: „Varð að þessu óbeinlínis mikill styrkur baráttunni fyrir fullu frelsi landsins. “Ljóminn af fornri frægð Íslands” sem þar var endurvakinn í minningunni, lýsi enn á ný brautina til betra gengis.”
Nefnd var skipuð til þess að annast undirbúning hátíðahaldanna. Nefndin kallaði á fund sinn bæði Sigurjón Pétursson íþróttakappa og frömuð sem og Benedikt G. Waage, forseta ÍSÍ, til ráðfæringar og framkvæmdar á Íþróttahátíðinni. Úr varð að ÍSÍ annaðist undirbúning hátíðahaldanna en Magnús Kjaran, framkvæmdarstjóri hátíðarinnar og mikill íþróttamaður, hafði yfirumsjón með þeirri vinnu. Sýnir það hve veigamikinn sess íþróttaiðkuninni var gefin í dagskránni. Lögð var áhersla á hópsýningar og borgaði nefndin sjálf fyrir handleiðslu, útbúnað og leigu á húsnæði til þess að sýningarnar mættu takast sem best. Megináherslan var þó eins og áður og síðar sýning á hinni þjóðlegu íþrótt, glímunni, sem keppa átti í á hátíðinni. Nefndin ákvað að láta útbúa sérstakan verðlauna grip, Glímuhornið, sem verðlauna átti sigurvegara Þingvallaglímunnar með. Ríkharður Jónsson gróf í það myndir og letur en Jónatan Jónsson, gullsmiður, bjó um silfrið á því.
Þegar samkomulag hafði náðst á Alþingi um að ganga formlega frá skilnaði við Dani og halda atkvæðagreiðslu um uppsögn Sambandslagasáttmálans og stofna lýðveldi á Íslandi þann 17. júní 1944 var ákveðið að efna til hátíðarhalda þann sama dag. Skýrt var frá upphafi að hátíðin skildi fara fram á Þingvöllum. Einnig var það alveg skýrt að íþróttakeppni og sýning skildi vera haldin á hátíðarsvæðinu. Komin var hefð fyrir því árin fyrir 1944 að íþróttafólk hefði 17. júni sem aðal hátíðardag sinn. Þannig hafði Íslandsmót ÍSÍ jafnan farið fram þann dag í Reykjavík og þótti því mörgum sjálfsagt að íþróttir væru ekki aðeins hluti hátíðahaldanna heldur gert sérstaklega hátt undir höfði.
Fyrstu drög ÍSÍ, sem annast átti undirbúning, að íþróttadagskrá gerði ráð fyrir boðhlaupi frá Reykjavík til Þingvalla. Hlaupa átti með Lýðveldishamarinn sem gerður hafði verið fyrir ÍSÍ af Ríkharði Jónssyni sérstaklega fyrir hátíðina. Þó varð ekkert af þessu hlaupi þar sem það þótti draga of mikla athygli frá öðrum viðburðum. Hamarinn var því afhentur Alþingi 16. júní af Benedikt G. Waage forseta sambandsins. Íþróttanefndin sendi hátíðarnefndinni einnig tillögur að hópfimleikasýningum. Í þeim fólst að um þúsund iðkendur, drengir, stúlkur, karlar og konur áttu að sýna á íþróttapallinum æfingar sínar. Fallið var frá þessum hugmyndum enda auðséð að afar vandasamt yrði að koma svo mörgum fyrir á pallinum og hátíðarsvæðinu. Varð úr að 170 fimleikamenn sýndu æfingar sýnar. 18. júní átti Íslandsmót ÍSÍ svo að fara fram í Reykjavík.
Eins og svo oft áður þótti sjálfsagt að glíma yrði hluti hátíðardagskrár. Úrslit Íslandsglímunnar áttu því að fara fram á undan hópsýningunni. Ríkisstjónin ákvað ennfremur að Glímukóngi Íslands 1944 yrði færður fagur silfurbikar með ágröfnu þjóðhátíðarmerki og það jafnframt tekið fram í áletrun að hann væri unninn í glímukeppni sem fram hefði farið á stofndegi lýðveldisins. Úrslit Íslandsglímunnar féllu þó niður sökum mikilla rigninga en fór fram tveimur dögum síðar í Reykjavík.
Ef þú ert með spurningar eða athugasemdir sem þú vilt koma á framfæri við mig mátt þú endilega hafa samband á netfangið [email protected].
Leiðbeinandi í meistaraverkefninu var Kristinn Schram. Kann ég honum bestu þakkir fyrir leiðsögn hans og samstarf.
Allar ljósmyndir eru fengnar úr safneign Ljósmyndasafns Íslands. Frekari upplýsingar um myndir má finna inni á vefsíðunni Sarpur.is.
Mínar innilegustu þakkir fá Jón Hjörtur Brjánsson fyrir ýmiskonar aðstoð við uppsetningu sýningarinnar, starfsfólk Ljósmyndasafns Íslands fyrir hjálp við vinnslu hennar og samstarfsfólk mitt hjá Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands og samnemendur við Háskóla Íslands fyrir aðstoð við hugmyndavinnu að sýningunni. Þakkir fá vinir mínir og fjölskylda fyrir þeirra hvatningu og stuðning.
Hægt er að fara aftur á upphafssíðu sýningar með því að halda áfram að ýta til hægri.